Egócentrískur fréttaflutningur
Mér datt í hug að taka Dísu á orðinu og skrifa einhvern þvætting um hvaða stefnu mitt líf hefur tekið...
Ef mér tekst ekki að klúðra málunum þeim mun betur, er ég á mínu síðasta misseri í B.Sc. náminu og ætla mér að vinna í 1-2 ár áður en ég held til Baunverjalands í M.Sc. nám. Meiningin er að kenna á framhaldsskólastigi þessi ár, norðan heiða.
Í síðustu viku byrjaði ég á sérverkefninu mínu sem er á sviði ólífrænnar efnafræði undir handleiðslu dr. Sigurjóns N. Ólafssonar eða SNÓ eins og hann er jafnan kallaður af nemendum. Meiningin er að gera tilraun til smíði og greininga á palladíumkomplex sem til dæmis mætti kalla bis(dífenýlfosfínó)própan bis(dífenýlfosfínoxíð)dísúlfíðmetanópalladium(II) og skyldum komplexum af palladium og platínu. Þetta kann ekki að hljóma sérstaklega heillandi í allra eyrum, en er mjög spennandi þegar maður hefur verið að hrærast í skyldum verkefnum. Gríðarlega sæta og sjarmerandi mynd af téðum komplex má sjá hér að neðan. Með því einu að smella músarhnappinum á hana örsnöggt og af innilegri sannfæringu má fá netvafrann til að opna nýjan glugga þar sem myndin sést betur. Svona er nú tæknin í dag krakkar mínir.
Þá vitið þið nokkurn veginn hvað ég er að aðhafast þessa dagana. Að lokum er náttúrulega rétt að lýsa yfir sérstakri ánægju minni með planaðan hitting með hvaða formi sem hann verður. Það er gaman að hitta ykkur ánana alla saman, við erum svo ótrúlega yndislegt fólk í þessari ætt! Bis später...
Dixi
<< Heim