23 desember 2005

Jólin

Jæja elskur, á morgun eru þessi yndislegu jól, sem virðast sameina systur og styrkja fjölskyldubönd.Í dag kom Gunna mín í heimsókn og fékk sér smá kaffisopa, hún fékk að vísu ekki mikið með því sem hún gat nært sig á en hún nærði mitt smáa hjarta for the rest of the day, þ.e.a.s. þangað til að Heiba og fjölskylda komu og nú verð ég að segja ykkur smá brandara í sambandi við það: Sigurbjörg ætlaði sem sagt að koma til mín til að fá Sörur, svo að ég hugsaði með mér að það væri best að fara að setja smákökur á fat og hafa tilbúið þegar þau kæmu, nú í stuttu máli, ég fann allar mínar "sortir" nema SÖRUR,( sortirnar voru nú reyndar ekki nema ca.4) þá rann upp fyrir mér ljós, við Kristín bökuðum Sörur, og hún fékk þær allar, vegna þess að við Nína ætluðum að baka Sörur saman, Nína mín tilvonandi afmælisstelpa( HÚN Á AFMÆLI Á MORGUN SKO) hvað varð um sörubaksturinn??????. Svo að aumingaj þú Sigurbjörg mín þú fékkst engar Sörur en vonandi fórstu ekki svöng frá mér, þú mannst svo ef mamma þín þu veist !!!!!!!!!!!!!!.Mér líður voða vel núna nema jólagjöfin hans Sigurjóns míns klúðraðist aðeins, en sem betur fer er það ekki mér að kenna og bara smámál að redda því, að vísu eftir jól ern það verður bara að hafa það.En ég ætla ða reyna að baka smá Sörur fyrir afmælið hans Árna Viggós, við ætlum sem sagt að hafa smá kaffi þá, ef fólk verður almennt með heilsu , nei fólk getur bara drukkið í hófi á gamlárskvöld eða bara sleppt því alveg, nei Marri minn ég ætla ekki að drekka viskí þá, nema bara í hófi!!!!!!.Ykkur er sem sagt öllum boðið í smá kaffi á nýársdag, viljiði koma því til skila til ykkar fólks. Oh ég hlakka svo til, mér finnst svo gaman þegar við erum öll saman, verður þú hér þá Hlífa mín ?Jæja elskur, óska ykkur öllum gleðilegra jóla og alls hins besta á nyju ári. Elska ykkur öll bara misjafnlega mikið eins og áður hefur komið fram !!!!Ykkar Dísamamma

22 desember 2005

jæja þá er þetta loksins yfirstaðið:)

sælt elsku fólk

já svo er nú mál með vexti að signý litla er barasta búin að vera með ælupest síðan á laugardaginn en dagurinn í dag lofar góðu.. þetta er búið að vera hreint helvíti á jörð skal ég segja ykkur, ég búin að eyða öllum tímanum sem ég ætlaði að vera með Árna Viggó og Nínu í ælupest.. já sum ykkar vita nú hvernig ég er þegar ég fæ þetta þannig að þetta var heldur ekkert gaman fyrir annað heimilisfólk:( nú er ég farin að hlakka ágætlega til jólanna alveg hreint en ég er að hugsa um að búa mér bara til dúkkar af öllum fjölskyldumeðlimum sem vanta og stilla þeim snyrtilega upp! Því betur fer koma amma og afi til okkar á aðfangadagskvöld, það er nú alltaf gaman að hafa þau blessunin!!!

Jæja nú ætla ég að reyna að fara að gera eitthvað fyrin hana múttu mína.. eða sko ekki endilega fyrir hana heldur það sem hún bað mig um að gera:)
Sjáumst

21 desember 2005

Halló allir...

Jæja það er nú allt að verða tilbúið hérna hjá mér fyrir blessuð jólin. Ég nennti nú ekki að stressa mig um of á kökubakstrinum, við höfum ekkert gott af þessu hvort sem er. Bakaði nú samt skinkuhorn, varð allt í einu voða heimilisleg og gerði þrefalda uppskrift. Það ætla ég aldrei að gera aftur, hélt að þetta ætlaði engan endi að taka.
Annars er nú bara allt gott að frétta af okkur nema það að Sunneva er í Mosó og kemur ekki heim fyrr en á Þorláksmessu. Marri sem ætlaði í smá jólafrí um 15. des. er enn að vinna og tilkynnti mér það í gær að hann þyrfti því miður að vinna á Þorláksmessu líka. Ég var nú ekkert rosalega ánægð, var búin að ákveða að við ætluðum að gera eitthvað skemmtilegt með börnunum en við verðum þá bara þrjú eina ferðina enn. Það verður víst einhver að vinna fyrir heimilinu.
Kristófer er að breytast í Íþróttaálfinn. Stundum svarar hann mér t.d. ekki (sem er nú reyndar ekkert nýtt) fyrr en ég hef vit á því að kalla hann Íþróttaálf. Hann er alveg með taktana á hreinu, sveiflar höndunum til hliðar og rýkur svo af stað.
En jæja best að fara að grafa upp jólatréð.
Kveðjur, Kristín Rós.

20 desember 2005

Jólafrí hafið

Jæja þá er loksins komið jólafrí hjá mér. Nú á bara eftir að klára það litla sem eftir er af jólagjafainnkaupum. Það ætti nú að ganga án þess að stressið hafi mikil áhrif þar sem ég hef tíma þangað til 7 annað kvöld til þess.

Ég og Ísak komum svo norður með rútunni á fimmtudaginn. Held að við hljótum að þurfa að panta stóran leigubíl til að keyra okkur á rútuna með allt draslið.

Held í þá veiku von að hann pabbi gamli verði ekki búinn með allar sörurnar sem mamma var að gera áður en ég kem. Hann hringdi í mig í gær og sagðist skammast sín mjög þar sem að hann gat ekki borðað þær jafn óðum og mamma setti kremið á. Það er því örlítil vonarglæta enn. Annars mæti ég bara til Dísu og heimta sörur.

Jæja, farin að stússast. Vil bara segja eitt enn: Ég er komin í jólafrí

15 desember 2005

konfekt

langar bara að segja ykkur að við Nína erum að búa til konfekt, svo þið fáið ekki bara kökur ef þið komið í heimsókn.....Annars er allt gott að frétta, jólakortin fóru í póst í morgun og jólagjafakaupum næstum því lokið. Bið að heilsa ykkur í bili. Dísamamma

Ofur-blogg

Nú eru víst alveg að koma jól sem er bæði gott og slæmt. Gott af því að þá má ég borða rosa góðan mat og fullt af honum án þess að fá samviskubit fyrr en í janúar. Slæmt af því að ég á eftir að gera rosa margt. Stress á víst að fylgja nútímajólum en ég var búin að heita því að verða aldrei stressuð yfir jólunum. Ég ætla mér að standa við það og þess vegna verða bara þær jólagjafir keyptar sem ég kemst yfir að versla í rólegheitunum. Þeir sem eiga ekki jólagjafir í þeim bunka eru bara óheppnir.

Annars er hún Amma gamla búin að vera hér hjá mér, fór reyndar í dag. Fórum til augnlæknisins gær. Ég ætla að segja tvær sögur af því ferðalagi. Sú fyrri er um "þjónustuna" og sú seinni um ástand og horfur augna Ömmu gömlu.

Saga 1: Biðum á biðstofunni í rúmlega klukkustund. Það vakti persónuleikann minn sem venjulega liggur að mestu í dvala, hana Sibbu gribbu eða Gribbuna. Hún varð mjög reið fyrir hönd Gömlu. Svo opnaði þessi ágæti augnlæknir dyrnar á höllinni sinni og bauð okkur inn.

Læknirinn sagði: "Hvað segið þið svo gott í dag?"

Sibba gribba svaraði: "Bara allt ágætt, nema við erum búnar að bíða í klukkutíma hér frammi!"

Smeðjubrosið dofnaði ekki einu sinni á lækna-gerpinu á meðan það ullaði út úr sér: "Já, ég veit."

Já, ég veit! Já, ég veit!!! Ekki afsakið eða fyrirgefiði eða mér finnst það leiðinlegt eða það er búið að vera mikið að gera í dag. Bara: "Já, ég veit." Þoli ekki svona helvítis ókurteisi. Eins og tími viðskiptavinanna skipti engu máli eða vanlíðan Ömmu gömlu og allra hinna gamlingjanna sem bíða þarna frammi tímunum saman. Sibbu gribbu langaði alveg ótæpilega að hvæsa: "Á maður þá ekki að segja fyrirgefðu?" Sigurbjörg bestabarn bældi samt Gribbuna niður til að Ömmu gömlu liði ekki meira illa. Ömmu finnst nefnilega ekki gaman þegar Gribban skammar lækninn. Það er samt augljóst að það þarf að ala lækninn betur upp. Verð samt að taka fram að að öðru leyti er læknirinn góður við Gömluna (nema hún endar allar setningar á "skiluru" sem fer í taugarnar á bæði mér og Ömmu).

Saga 2: Sennilega hafið þið samt meiri áhuga á að vita hvað augnlæknirinn sagði um augun í henni Gömlu og hér kemur það. Þrýstingurinn er orðinn betri í báðum augum. Í hærra lagi í hægra auganu, sem var skorið, og svolítið of hár í vinstra auganu, sem fékk leysigeislameðferð. Amma þarf að koma aftur hingað suður í seinnipartinn í janúar í skoðun. Sennilega á þrýstingurinn eftir að lækka meira í vinstra auganu (áhrifin af leysigeislunum eru lengi að koma að fullu) en ef hann er enn of hár ætlar læknirinn að setja meiri leyser á það strax sama dag og skoðunartíminn er. Sniðugt ekki satt. Það á semsagt að reyna að komast hjá því að skera í vinstra augað líka, sem er þó gott.

Jæja, nú hætti ég þessu blaðri. Sennilega eru líka allir löngu hættir að lesa þessa langloku hvort sem er. Ef þú ert enn að lesa þá er þessu beint til þín: Þú ert nýja uppáhaldið mitt :)

13 desember 2005

búin að baka fullt

Jæja elskur hvernig gengur í prófum ? Vona af öllu hjarta að ykkur gangi öllum vel. Eins og þið sjálfsagt vitið öll, náði ég Nínu til mín í fyrradag frá Árna Viggó, og nú er hún alsæl hér í sveitasælunni, búin að vinna í rækjunni í 2 daga og fór með tengdó(mömmu) í konfekt gerð í kvöld , sem fram fór í vinnunni hjá mér, og mér fannst rosagaman þótt afköstin væru svo sem ekkert rosaleg ,það er bara svo gaman að gera eitthvað svona saman.Á morgun fæ ég svo aldeilis sendingu, þ,e.a.s. Árni Viggó, Signý og amma gamla, þá ætla ég að gefa stráknum mínum eitthvað gott að borða, t.d. lambahrygg eða bara eitthvað gott sem ég finn í búðinni. Og svo ætla ég að búa til ananasfromage handa honum á Þorláksmessu, sem hann getur haft með sér til Akureyris svo hann gleymi ekki alveg mömmujólum, þegar hann hefur smakkað rjúpurnar sem hann skaut.Langar enn að vita hvernig þið hagið jólum þ.e.a.s. hvar þið verðið, svo bara spyr ég af hverju eru ekki fleiri af okkar ástsælu fjölskyldu á þessu bloggi ? t.d. Heiba, Gunna, Sóla,Hjörtur,Þorgeir,MAN I .MISS YOU.Já ég á eftir að segja ykkur að ég bakaði FULLT um helgina,sörur,2 brúntertur,kúrennukökur, kurltoppa og súkkulaðibitakökur, og var ekkert smáánægð með mig þar sem ég var með einhverja andskotans magapest líka bæði upp og niður!!!!! Svo að þið sjáið að þið getið komið í kaffi til mín ef þið verið svolítið snögg.......... vegna þess að SUMIR koma heim á morgun(nefni engin nöfn og ekki einu sinni hvort þau eru í et. eða ft.)Jæja elskur vona að þið hafið það gott elska ykkur öll líka þig Ísak minn. Dísamamma

07 desember 2005

Ég tóri líka

Ég er líka á lífi þó ótrúlegt megi virðast eftir þessar ofurverzlunarferðir um síðustu helgi með foreldrum mínum. Ég hef bara engan vegin sama úthald og þau í búðarráp. Hef nú ekki þá afsökun að ég sé að læra undir próf, en ég hef samt sem áður verið að læra á Barónsstígnum. Þess vegna er ég sjaldan með nettengingu þar sem háskólinn splæsir ekki í svoleiðis fínerí í lesaðstöðu nemendna.

Fyrir þá sem ekki vita það er lessaðastaðan mín á gamalli sjúkradeild, sumir vilja meina að þetta hafi verið geðdeild, þar sem það eru enn takkar á veggjunum til að hringja á hjúkkuna og svona. Svo eru klósettin, eða réttara sagt herbergin þar sem þau eru, risa gímöld (er þetta skrifað svona, maður spyr sig) þar sem klósettið er úti í horni og leifar af baðaðstöðu sjúklinga taka megnið af plássinu. Það er því frekar draugalegt að verða ein eftir þarna á kvöldin!

Það er kominn smá jólaandi í íbúðina mína; jóladúkur á sófaborðið og svona. Svo er ég (með góðri hjálp) búin að baka/steikja það sem átti að vera laufabrauð. Það samanstendur reyndar aðallega af stórum loftbólum en smakkast samt sem áður ágætlega. Hugsa jafnvel að ég baki sörur um helgina, það gengur venjulega vel.

Jæja best að hætta þessu rugli og druslast á draugadeildina á Baró.

Er á lífi

Jú, elskurnar mínar, ég er á lífi. Er bara svo löt að fara í tölvuna þegar ég kem heim enda búin að sita fyrir framan tölvu allan daginn. Ég bakaði tvær sortir og málaði piparkökur um helgina en núna hef ég bara mikið að gera í vinnunni og jólagjafareddingum fyrir mig og aðra ásamt því að hafa eitt heilmiklum tíma í leit að jólakortalistanum mínum sem hefur EKKI fundist!!! Gaman að því. Ég er hins vegar ólíkt Dísu frænku minni í miklu jólaskapi eins og alltaf. Bára er í sveitinni hjá ömmu sinni og afa eins og kannski flestir hér vita. Fór með þeim á sunnudaginn. Ég sakna hennar auðvitað alveg hræðilega og get ekki beðið eftir að komast sjálf norður á föstudaginn til að knúsa hana. Við verðum sem sagt öll fyrir norðan um næstu helgi og ég vonast eftir að geta séð sem flesta í ferðinni, þó ekki væri nema í mýflugumynd. Jólakveðjur Hlíf

06 desember 2005

Sorry

-Sorry elsku Ávs, mér ferst víst ekki að tala um fyllerí þa sem ég ákvað að fá mér viskí lögg núna áðan og vita hvort ég gæti ekki hugsað mér að skrifa nokkur jólakort og viti menn ég er búin að skrifa nákvæmlega 22 jólakort til minna nánustu og bestu ættingja, þið vitið þá hvað mér finnst um ykkur ef þið fáið ekki eitt slíkt !!! Já elskur ég veit að sum ykkar eruð í prófum en sum ykkar hafið enga afsökun fyrir að láta ekki í ykkur heyra !!Þú til dæmis Hlífa mín og hvernig er með hana Sólu og hann Þorgeir eru þau ekki með í þessu líka ?Mér finnst þetta svo frábært tækifæri til að fyldjast aðeins með ykkur. Gangi ykkur svo vel áprófunum og ykkur öllum í hinu daglega lífi.Mammadísa

Hvað er í gangi ?

Hvað er þetta með ykkur elsku frændfólk, eru þið öll steindauð eða hvað.Maður heyrir hvorki hósta né stunu frá ykkur.....nema helst fylleríislýsingar hjá Árna Viggó ! Það er svo gjörsamlega laust við að ég sé í jólastuði ,svo að þið verðið ekkert hissa þó að þið fáið ekkert jolakort frá mér og minni alltaf minnkandi fjölskyldu.Hvar ætlar fólkið svo að vera um jólin, fær maður að sjá eitthvert ykkar, eða jafnvel um áramótin ?Jæja nú fæ ég tvo litla kroppa til mín á morgun og einn stóran , Kristín mín var ég ekki búin að lofa þér kjötsúpu þegar þú kæmir næst ? Þú færð hana annað kvöld .Jæja elskurnar mínar elska ykkur öll, samt aðeins mismikið eftir skyldleika við mig, ykkar Dísamamma.

05 desember 2005

einsemdin

Gott kvöld

Hvursslags eiginlega er þetta?
Mamma mín kær er eini virki bloggarinn:) stolt af yndinu mínu
jæja allavega.. prófin eru byrjuð, búin að fara í félagsfræði og íslenskan er á morgun.
Ég er alveg einstaklega einmana núna og satt best að segja fremur þreytt.
Gaman að segja frá því að bíllinn minn hann Skapti er í viðgerð og fæ ég hann afhentan næstum "as good as new" í lok vikunnar.
Seinasta prófið er á mánudaginn og þegar það er búið verður brunað suður á bóginn í leit að ættmennum:)

jæja ég ætla að leggja mig
Góða nótt
Signý Ósk

04 desember 2005

Komin heim

Jæja nú er ég loksins komin heim , var ekki nema 5- 6 tíma á leiðinni ! En það gekk allt mjög vel og ég naut samvista við elskurnar mínar í Hveragerði til fullnustu um helgina.að ykkur gangi vel í prófum þið sem standið í þeim, og allir hafi það gott. Dísa mamma

01 desember 2005

Takk elskur

Takk elskurnar mínar fyrir að leyfa gömlu druslunni að vera með, mér finnst þetta dásamlegt að geta "heyrt" í ykkur öllum, og líka að sjá hvað þið eruð dugleg að hafa samband ykkar á milli. Þið eigið örugglega eftir að "heyra" frá mér á þessari síðu. þetta er frábært framtak !!

Bara til að vera með

Mér finnst ég aldrei hafa neitt nógu merkilegt til að skrifa hér inn. Get þó sagt ykkur að ég hnoðaði í piparkökudeig í gær og ætla að baka þær þegar ég kem heim í dag. Allt á réttri leið fyrir jólin!

Get líka sagt ykkur eina sögu af Báru. Hún kom heim úr leikskólanum í vikunni og sagði mér að mamma vinkonu hennar hefði sagt að þegar tveir fullorðnir lægju hvor ofan á öðrum væri það fullorðinsleikur. Bára var alveg ægilega hneiksluð á þess og fannst þetta vera hin mesta firra. Ég spurði hana hvað þetta væri þá og hún leit á mig eins og ég væri kjáni og sagði mér að þetta væri auðvitað bara hnoð. Sem sagt fyrir fólk á öllum aldri. Nokkuð til í því!

Vona annars að allir séu komnir í eins mikið jólastuð og ég. Jólakveðjur af Háaleitisbrautinni

© Ísak Sigurjón, 2006 ⊥ HTML 4.01CSS