21 desember 2005

Halló allir...

Jæja það er nú allt að verða tilbúið hérna hjá mér fyrir blessuð jólin. Ég nennti nú ekki að stressa mig um of á kökubakstrinum, við höfum ekkert gott af þessu hvort sem er. Bakaði nú samt skinkuhorn, varð allt í einu voða heimilisleg og gerði þrefalda uppskrift. Það ætla ég aldrei að gera aftur, hélt að þetta ætlaði engan endi að taka.
Annars er nú bara allt gott að frétta af okkur nema það að Sunneva er í Mosó og kemur ekki heim fyrr en á Þorláksmessu. Marri sem ætlaði í smá jólafrí um 15. des. er enn að vinna og tilkynnti mér það í gær að hann þyrfti því miður að vinna á Þorláksmessu líka. Ég var nú ekkert rosalega ánægð, var búin að ákveða að við ætluðum að gera eitthvað skemmtilegt með börnunum en við verðum þá bara þrjú eina ferðina enn. Það verður víst einhver að vinna fyrir heimilinu.
Kristófer er að breytast í Íþróttaálfinn. Stundum svarar hann mér t.d. ekki (sem er nú reyndar ekkert nýtt) fyrr en ég hef vit á því að kalla hann Íþróttaálf. Hann er alveg með taktana á hreinu, sveiflar höndunum til hliðar og rýkur svo af stað.
En jæja best að fara að grafa upp jólatréð.
Kveðjur, Kristín Rós.

© Ísak Sigurjón, 2006 ⊥ HTML 4.01CSS