01 júlí 2008

Sælt veri fólkið

Nú sit ég hér með morgunmatinn minn fyrir framan mig og fyrir augunum hef ég gamalkunna sjón. Áshildarholtsvatnið úfið í norðanátt. Það er að hluta orðið rautt af gróðri og það rifjast upp fyrir mér þegar Þorgeir brunaði á slöngubátnum sínum yfir vatnið og sló gróðurinn í leiðinni með skrúfunni á mótornum. Líka þegar Signý Ósk „týndist“ þegar hún var lítil rófa í pössun hjá okkur. Við mamma vorum auðvitað skíthræddar um að hún hefði farið í vatnið, öskruðum okkur hásar í þeirri veiku von að hún svararði eða kæmi. Sem hún gerði ekki. Eftir að við mæðgur höfðum hlaupið nokkra móðursýkislega hringi í örvæntingarfullri leit að barninu birtist Signý skyndilega í kofadyrunum og spyr sallaróleg hvort að við höfum kallað. Seint gleymi ég líka deginum sem bílskúrshurðin sprakk, dótið hennar Þóru gömlu sogaðist í sjóinn og Álfur í Brennigerði húfunni sinni. En það var nú í sunnanátt.

Sennilega gæti ég skrifað niður minningar héðan í allan dag en það væri varla skemmtilegt aflestrar fyrir ykkur hin.

Upphaflega ætlaði ég nú bara að segja að ég er komin í sumarfrí. Já, alvöru sumarfrí í heilan mánuð (reyndar ekki á neinum launum - en hvaða máli skiptir það). Hef samt örlitlar áhyggjur því að í dag er útborgunardagur og síðustu nótt dreymdi mig útborgunina. Hún var rétt rúmar 80.000 kr. Ég ætla rétt að vona að hún sé nú aðeins hærri.

P.s. Hvernig er með hitting þetta sumarið?

© Ísak Sigurjón, 2006 ⊥ HTML 4.01CSS