Ofur-blogg
Nú eru víst alveg að koma jól sem er bæði gott og slæmt. Gott af því að þá má ég borða rosa góðan mat og fullt af honum án þess að fá samviskubit fyrr en í janúar. Slæmt af því að ég á eftir að gera rosa margt. Stress á víst að fylgja nútímajólum en ég var búin að heita því að verða aldrei stressuð yfir jólunum. Ég ætla mér að standa við það og þess vegna verða bara þær jólagjafir keyptar sem ég kemst yfir að versla í rólegheitunum. Þeir sem eiga ekki jólagjafir í þeim bunka eru bara óheppnir.
Annars er hún Amma gamla búin að vera hér hjá mér, fór reyndar í dag. Fórum til augnlæknisins gær. Ég ætla að segja tvær sögur af því ferðalagi. Sú fyrri er um "þjónustuna" og sú seinni um ástand og horfur augna Ömmu gömlu.
Saga 1: Biðum á biðstofunni í rúmlega klukkustund. Það vakti persónuleikann minn sem venjulega liggur að mestu í dvala, hana Sibbu gribbu eða Gribbuna. Hún varð mjög reið fyrir hönd Gömlu. Svo opnaði þessi ágæti augnlæknir dyrnar á höllinni sinni og bauð okkur inn.
Læknirinn sagði: "Hvað segið þið svo gott í dag?"
Sibba gribba svaraði: "Bara allt ágætt, nema við erum búnar að bíða í klukkutíma hér frammi!"
Smeðjubrosið dofnaði ekki einu sinni á lækna-gerpinu á meðan það ullaði út úr sér: "Já, ég veit."
Já, ég veit! Já, ég veit!!! Ekki afsakið eða fyrirgefiði eða mér finnst það leiðinlegt eða það er búið að vera mikið að gera í dag. Bara: "Já, ég veit." Þoli ekki svona helvítis ókurteisi. Eins og tími viðskiptavinanna skipti engu máli eða vanlíðan Ömmu gömlu og allra hinna gamlingjanna sem bíða þarna frammi tímunum saman. Sibbu gribbu langaði alveg ótæpilega að hvæsa: "Á maður þá ekki að segja fyrirgefðu?" Sigurbjörg bestabarn bældi samt Gribbuna niður til að Ömmu gömlu liði ekki meira illa. Ömmu finnst nefnilega ekki gaman þegar Gribban skammar lækninn. Það er samt augljóst að það þarf að ala lækninn betur upp. Verð samt að taka fram að að öðru leyti er læknirinn góður við Gömluna (nema hún endar allar setningar á "skiluru" sem fer í taugarnar á bæði mér og Ömmu).
Saga 2: Sennilega hafið þið samt meiri áhuga á að vita hvað augnlæknirinn sagði um augun í henni Gömlu og hér kemur það. Þrýstingurinn er orðinn betri í báðum augum. Í hærra lagi í hægra auganu, sem var skorið, og svolítið of hár í vinstra auganu, sem fékk leysigeislameðferð. Amma þarf að koma aftur hingað suður í seinnipartinn í janúar í skoðun. Sennilega á þrýstingurinn eftir að lækka meira í vinstra auganu (áhrifin af leysigeislunum eru lengi að koma að fullu) en ef hann er enn of hár ætlar læknirinn að setja meiri leyser á það strax sama dag og skoðunartíminn er. Sniðugt ekki satt. Það á semsagt að reyna að komast hjá því að skera í vinstra augað líka, sem er þó gott.
Jæja, nú hætti ég þessu blaðri. Sennilega eru líka allir löngu hættir að lesa þessa langloku hvort sem er. Ef þú ert enn að lesa þá er þessu beint til þín: Þú ert nýja uppáhaldið mitt :)
<< Heim