26 febrúar 2006

Seint koma sumir en koma þó...

Jæja gott fólk. Það er aldeilis gaman að sjá að Sólmundur minn hefur séð sér fært að rita hér nokkur orð. Vona bara að þú verðir duglegri en ég að setja hér inn pistla. Held svei mér þá að ég hafi ekki skrifað neitt síðan fyrir jól. Ég kíki nú samt reglulega.
Ég hafði einstaklega góðan gest hér um helgina. Hún Bára frænka gisti hjá okkur á föstudagskvöldið. Hún var svo elskuleg að færa Sunnevu geisladiskinn með íslensku Eurovision lögunum. Þær hlustuðu stanslaust á Sylvíu Nótt í botni í rúma 3 klukkutíma. Af minni alkunnu þolinmæði tókst mér að halda ró minni. Það var nú líka út af fyrir sig ágætis skemmtiatriði að fylgjast með þeim. Búnar að læra bæði textann og "dansinn" nokkurn veginn utan að. Þegar þær voru búnar að dressa sig upp í alltof lítil bikini minntu þær óneitanlega á tvær litlar hórur. (Ekkert illa meint. ) Ég dró bara vandlega fyrir alla glugga og forðaði mér upp. Ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að snúa mér. Ég ákvað að treysta bara á dómgreind mér eldri og reyndari frænku, þ.e. mömmuna sem keypti diskinn og hafa gaman að þessu. Enda skemmtu sér allir konunglega. Nema kannski Kristófer sem fannst hann eitthvað afskiptur svo ég spurði stelpurnar hvort hann mætti ekki vera dansari, Sylvía Nótt var jú með tvo gæja með sér. Það reyndist ekki hægt af því að hann gat víst ekki lyft þeim upp í lokin eins og dansararnir hennar Sylvíu. Svo Kristófer hélt bara áfram að vera íþróttaálfur.
Þetta var nú meiri langlokan hjá mér, læt hana nægja í bili.
Kveðja, Kristín Rós.

© Ísak Sigurjón, 2006 ⊥ HTML 4.01CSS