30 nóvember 2005

Svo lengi lærir sem lifir... eða eitthvað svoleiðis

Ég komst að þremur áhugaverðum staðreyndum um mig á síðustu dögum:
  1. 16 ára krökkum finnst ég ekki jafn skemmtileg og Singstar. Allavega fékk ég enga athygli frá þeim í VMA sama hversu mikið ég reyndi.
  2. Ég er samt það skemmtileg að sumt fólk mætir í kaffi til mín kl. hálf sex á morgnanna á virkum dögum, þrátt fyrir að hafa ekki verið boðið.
  3. Ég get ennþá sest niður og lært klukkustundunum saman. Þetta er sérstaklega ánægjuleg staðreynd þar sem ég á alveg örugglega eftir að þurfa að nýta þann hæfileika mikið á næstu mánuðum
Annað markvert í fréttum er að við Ísak vorum í mat hjá Árna Viggó og Nínu. Þríréttað og alles. Humar í forrétt, saltfiskréttur í ofni í aðalrétt og ís og úrslitaþáttur Americas next top model í eftirrétt. Ekki amalegt það. Frábær matur. Takk fyrir mig krakkar :) Er samt ennþá óþægilega mikið södd; bölvuð græðgin.
Ég skal bjóða í mat næst. Kominn tími á mig.

Yfir og út...

29 nóvember 2005

Ótrúlega freistandi...

Sæl öllsömul.
Ég verð að viðurkenna það að ég er alveg yfir mig hrifin af þessari síðu, hún er reyndar alveg einstaklega freistandi þegar maður á að vera að læra. Eins og t.a.m. núna. (fæ alltaf samviskubit ef ég skrifa t.d., þið kannist kannski við það ?)
Samt er ég farin að velta því fyrir mér hvort ég hafi misskilið þetta eitthvað. Átti "miðleggurinn" ekki að vera með eða ?? Mér finnst þau ekki alveg vera að standa sig í stykkinu. Ég óska hér með eftir upplýsingum um það hvað þau er að bauka.
Ég verð að segja að ég, eins og þið hin, gleðst óskaplega yfir þeim tíðindum að Hlíf(a) frænka mín skuli standa undir húsmóðurtitlinum og vera byrjuð að baka. Hún klikkar ekki á þessu stelpan.
Ég er að fara í próf á morgun og svo er ég eiginlega komin í jólafrí. Jibbí... Fer reyndar í eitt próf í næstu viku. Það er þó eins og gefur að skilja "seinnitímavandamál".
Svei mér þá ef það er ekki farið að freista mín að koma á Krókinn um áramótin. Ef þið ætlið að ráfa um götur bæjarins ofurölvi á ég erfitt með að missa af því. Gæti jafnvel skutlað ykkur. He he he. Eða ekki bara.
Jæja, best að drullast í bækurnar aftur. Kveðja, Kristín Rós.

28 nóvember 2005

Dagur leti og synda

Sælt veri fólkið
Svona til að byrja með þá langar mig að fá að vita hverjir koma hingað um jólin? hverjir verða til dæmis hérna þegar ástkær amma okkar á afmæli?
Gaman að segja frá því að ég er farin að hlakka til jólanna:D það verður alveg yndislega gaman hjá mér úr því að ég fæ nýju Harry Potter bókina í jólagjöf og mamma ætlar að gera tvöfalda uppskrift af fromage:) á samt eftir að sakna ykkar sem ekki verða hérna..
jæja prófin eru víst að skella á, þarf að fara að læra og gangi ykkur vel ef þið eruð að gera það sama:)
Kveðja, Signý Ósk

27 nóvember 2005

Frábærar viðtökur!

Til að byrja með verð ég að lýsa einstakri ánægju minni með viðtökurnar hjá ykkur greyin mín! Þetta fór langt fram úr björtustu vonum.

Svo tel ég líka við hæfi að setja inn smá frásgögn hérna um gærkvöldið, þar eð ég var svo heppinn, eins og Árni Viggó og Nína, að fá smáa manneskju í heimsókn. Hún Bára kom til mín í gær og við fórum saman heim til Robba vinar míns, þar sem hún fékk að skoða og handleika lítil kettlingakríli við mikinn fögnuð (mestmegnis af hennar hálfu).

Hún gisti svo uppí rúmi hjá mér sem varð, þótt ótrúlegt megi virðast, mér erfiðara en henni. Hún á það nefnilega til hún Bára að láta dálítið illa í svefni og ég vaknaði oft fyrir sakir þess að sparkað var í mig, ég kýldur vinalega í fésið eða tönnum gníst svoleiðis við hliðina á mér að ég hélt að höfuðið á mér myndi klofna í óhljóðunum. En engu að síður gat ég ekki verið annað en glaður þegar ég vaknaði klukkan 8 í morgun við það að gripið var utan um hálsinn á mér og sagt: "Ísak! Mig dreymdi kettlingana!". Ég held að börn séu það eina sem getur vakið mann án þess að maður verði önugur.

En þar sem ég er núna kominn með klígju yfir hvað þetta var hugljúf frásögn ætla ég að segja þetta gott að sinni. Ég vona að bloggið verði áfram jafn virkt og nú í upphafi (þó að það sé kannski dálítil bjartsýni).

Dixi

Sæl allt mitt yndislega fólk

jæja jæja
Ég vil byrja á því að lýsa yfir velþóknun minni á þessari undurfögru síðu:)
Mér datt nú bara svona í hug að rita nokkrar línur þó svo að mér finnist nú mun skemmtilegra að lesa ykkar færslur.
Svo vildi til að ég lagði leið mína í afmælisveislu hjá henni Ragnheiði Petru í gær og viti menn, hún fór ekki að gráta þegar hún sá mig og ég held að það hafi bara læðst smá bros fram á fallega munninn:) og litla konan vinkaði Signýju frænku meira að segja bless, ég var heldur betur ánægð með sjálfa mig.

Takk fyrir mig
Signý Ósk

Frábært framtak.

Komiði öll sæl og blessuð.
Þetta er alveg frábært hjá ykkur strákar. Ég var nú alveg jafn afhuga bloggi og Árni Viggó og Sigurbjörg en eins og þið vitið er ég mjög veikgeðja og stenst því ekki freistinguna að blanda mér í þetta.
Enda hlýtur þetta að verða mjög gott og flott þar sem svo margir af hinni rómuðu Borgarætt stinga saman nefjum (vill einmitt svo skemmtilega til að þau eru flest, ef ekki öll, mjög tignarleg).
Er alveg viss um að ættarhöbbðingjinn er ánægður með þetta framtak.
Tek undir með Ísaki ; megi dýrð ættarinnar aldrei dvína.
Kveðja, Kristín Rós.

Sælt veri fólkið!

Einhvertíman sagði ég nú að ég ætlaði aldrei að gera þetta þ.e. að blogga. En ég stend greinilega ekki við það frekar en annað! Hef samt enga skemmtilega sögu til að segja eins og Árni Viggó þannig að það er best að ég hætti bara.
Svona í blálokin á þessu gífurlega blogg-afreki panta ég sögur hingað af nýju kynslóðinni frá þeim sem búa svo vel að eiga lítil kríli.

Þá er ég mætt

Sæl öll

Þá kemur fyrsta bloggið mitt. Gaman að geta heyrt í ykkur öllum hér.

26 nóvember 2005

Úr öskunni rís dreki...

Hér mun rísa ættarsetur afkomenda Kristmundar Bjarnasonar og Hlífar Ragnheiðar Árnadóttur á vefheimum. Megi dýrð ættarinnar aldrei dvína...

Dixi

© Ísak Sigurjón, 2006 ⊥ HTML 4.01CSS