Frábærar viðtökur!
Til að byrja með verð ég að lýsa einstakri ánægju minni með viðtökurnar hjá ykkur greyin mín! Þetta fór langt fram úr björtustu vonum.
Svo tel ég líka við hæfi að setja inn smá frásgögn hérna um gærkvöldið, þar eð ég var svo heppinn, eins og Árni Viggó og Nína, að fá smáa manneskju í heimsókn. Hún Bára kom til mín í gær og við fórum saman heim til Robba vinar míns, þar sem hún fékk að skoða og handleika lítil kettlingakríli við mikinn fögnuð (mestmegnis af hennar hálfu).
Hún gisti svo uppí rúmi hjá mér sem varð, þótt ótrúlegt megi virðast, mér erfiðara en henni. Hún á það nefnilega til hún Bára að láta dálítið illa í svefni og ég vaknaði oft fyrir sakir þess að sparkað var í mig, ég kýldur vinalega í fésið eða tönnum gníst svoleiðis við hliðina á mér að ég hélt að höfuðið á mér myndi klofna í óhljóðunum. En engu að síður gat ég ekki verið annað en glaður þegar ég vaknaði klukkan 8 í morgun við það að gripið var utan um hálsinn á mér og sagt: "Ísak! Mig dreymdi kettlingana!". Ég held að börn séu það eina sem getur vakið mann án þess að maður verði önugur.
En þar sem ég er núna kominn með klígju yfir hvað þetta var hugljúf frásögn ætla ég að segja þetta gott að sinni. Ég vona að bloggið verði áfram jafn virkt og nú í upphafi (þó að það sé kannski dálítil bjartsýni).
Dixi
<< Heim