Jamm og jæja
Hér sit ég, svellspikaður og kampakátur, barmafullur af rauðrunnatei og konfekti, með smeðjulegt helgislepjubros á vör og hugsa til ykkar ættingjaómyndanna minna. Ég hefi nú þegar haft nokkur afskipti af allnokkrum skyldmennum; var svo bráðheppinn að fá Gunnufólk, náttúru- og sorglega að Þorgeiri og fylgifiskum undanskildum, hingað í efra Borgargerðið í skætingu (skæting, n. kvk.; sá verknaður að snæða skötu sbr. Svartdælasögu: "...höfðu þeir þá setið að skætingu tvö dægur og var orðið bumbult nokkuð..."). Verst þykir mér að hafa ekki njósnað með nokkru skynfæri merki um Dísu mína og hennar flokk (mér þótti það reyndar sérstaklega sorglegt að hún Signý Ósk skildi missa af skötuveislunni því ég veit að henni þykir jafn vænt og mér um þessi grísku stórfjölskylduboð), en það þýðir lítið (og þíðir enn minna) að fást um slíkt. Auk þess hefi ég lúmskan grun um að mér muni gefast tækifæri á að kvelja þær mæðgur með einhverjum hætti á næstu dögum, því mér skilst að þær hafi sagt skilið við syndugt Suðurlandið.
Það er varla vænna að geyma það að óska þeim, sem í prófum hafa staðið, til hamingju með próflokin og ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Okkur ömmu sýnist að sólin sé tekin að hækka nokkuð og bíðum spennt eftir degi sem er nógu heiðskír til að sjá megi sólarkvikindið sjálft í stað aums endurkasts af skömmustulegum skýjum í suðri.
En nú er þetta að verða hálfgerð ritgerð hjá mér svo ég hugsa að ég láti staðar numið að sinni. Nú er að hefjast nýtt ár innan skamms og geri ég hér með að tillögu minni að við keppumst öll við að vera dugleg að skrifa hér. Sjálfur hef ég verið ákaflega óduglegur hingað til, en hef hug á að bæta það.
Gleðilega sólstöðuhátíð!
Dixi