05 júlí 2006

Það er bara komið sumar

Ég var á Krít í viku og náði mér í kafara-skírteini og slatta af sólarexemi. Við Frikki ákváðum semsagt að eyða fyrstu þremur dögunum í lærdóm, bæði í formi fyrirlestra og verklegs náms í sundlaug og á hafsbotni. Mjög svo skemmtilegt og gerir okkur mögulegt að kafa út um allan heim. Daginn eftir námskeiðið keyptum við eina auka köfun á svolítið öðrum stað og vorum niðri á 14-15 metra dýpi í tæpar 50 mín. Vorum pínu svekkt með sjávarlífið en sáum þó skeljar (lifandi altso), humra, ála, ígulker og svo auðvitað slatta af fiskum og sjávargróður. Svo er mjög gaman að upplifa tilfinninguna að vera svona langt undir yfirborðinu.

Í þá tvo heilu daga sem eftir voru keyrðum við um vesturhluta eyjarinnar og sáum allt aðra Krít en boðið er uppá í Platanias, öðru nafni litlu Skandinavíu. Fjallvegirnir á Krít eru hlykkjóttari en slanga og beygjurnar yfirleitt u-beygjur eða rúmlega það. Þar að auki er þeir oft á tíðum mjög mjóir, eiginlega ekki nema einbreiðir. Samt er alltaf lína til að skipta veginum í tvær akreinar, jafnvel þó það sé ómögulegt að komast fyrir á þeim nema á mótorhjóli.

Til að svíkja nú ekki alveg lit sem týpískur íslensku túristi fórum við líka í vatnsrennibrautagarð (skemmtum okkur mjög vel í barnabrautnunum) og lágum hálfan dag á ströndinni.

Skelli inn myndum við tækifæri.

© Ísak Sigurjón, 2006 ⊥ HTML 4.01CSS